512 4200 info@tst.is

Leikskóli á Seltjarnarnesi

Samspil úti- og innisvæða sem örva þroska, skynjun og veita barninu örugga umgjörð eru megináherslur okkar tillögu að leikskóla.

HÚSIÐ
Mikilvægur þáttur leikskólastarfsins er leikur og nám utandyra. Það er grundvallaratriði að tryggja öllum nemum leikskólans gott aðgengi að fjölbreyttum leiksvæðum auk þægilegrar aðkomu allra að leikskóladeildum. Til að koma til móts við þetta er sett fram tillaga að einnar hæðar leikskólabyggingu, sem fellur vel að umhverfinu og skyggir ekki á aðliggjandi lóðir auk þess að hafa áhugaverða þakmynd sem blasir við efri hæðum aðliggjandi húsa. Norðurhlið hússins er að götu og gegnir hlutverki formlegrar framhliðar. Til suðurs eru mörk landslags og byggingar óljósari þannig að sjónræn upplifun nágranna ætti síður að verða rýrð.

Stór bygging er gerð barnvænni og mannlegri með uppskiptingu í einingar og eru sér inngangar á leikskóladeildir. Sameiginleg rými leikskólans eru í þeim hluta hússins við Suðurströnd sem tengja allar álmur. Aðalinngangur tengist sameiginlegum rýmum og þjónustuinngangur er við eldhús.

Tillagan byggir á staðlaðri útfærslu leikskóladeilda sem aðlaga má ólíkum aldursstigum. Leikskóladeildum er raðað í fjórar álmur með sama grunnfyrirkomulagi með innbyggðan sveigjanleika fyrir leikskólastarfið.

LEIKSKÓLADEILDIN
Leikskóladeildir mynda pör sem deila aðkomu, þurrkaðstöðu og fatahengi. Annarsvegar er ytri tenging um leikgarða og hinsvegar innri tenging, sem tengir leikskóladeildirnar innbyrðis og við sameiginleg rými. Gangar nýtast vel sem viðbótarrými leikskóladeilda og stoðrýma og þar má takmarka eða auka aðgengi milli deilda. Glerveggir að göngum auka gegnsæi og tengsl við ytra umhverfi.

Ungbarnadeildir eru næst bílastæðum. Þær hafa þá sérstöðu að vera afsíðis frá ys og þys leiksvæða eldri barna, en þangað má fara með hvítvoðungana í leiðangra þegar svo ber undir í starfi leikskólans.

Leikskóladeildum eldri barna má raða þannig að börnin færist upp um álmu til austurs eftir því sem þau eldast. Leiksvæðin utan við hvert deildarpar er aðlagað aldurhópi deilda.

LEIKSVÆÐIN
Byggingum leikskólans er komið þannig fyrir að afmörkuð eru útirými sem veita skjól og snúa vel að sólu á starfstíma leikskólans. Fjölbreytt leiksvæði sem hæfa aldri og aðstæðum barnanna er eitt meginmarkmið tillögunnar.

Þakið er að hluta aðgengilegt sem leik- og kennslusvæði. Það myndar heildæna samfellu við sjálfa lóðina. Með því skapast landslag sem eykur fjölbreytileika og myndar hreyfilegar áskoranir.

SAMEIGINLEG RÝMI
Sameiginleg rými leikskólans eru að Suðurströnd, en sameiginleg rými leikskóladeilda eru innan hverrar álmu. Skrifstofuaðstaða stjórnenda er við aðalinngang við Suðurströnd í góðum tengslum við bílastæði.

Eldhús með aðliggjandi vörumóttöku og sorpgeymslu er að Suðurströnd, miðsvæðis í leikskólanum í beinum tengslum við fjölnotasal. Fjölnotasalur þjónar fyrst og fremst daglegu starfi leikskólans og viðburðum skólaársins.

Ár 2019
Staður
Stærð -m2
Verkkaupi
Verkform
Mannvirki Leikskóli
Myndir Hans-Olav Andersen
Samstarfsaðilar
Tilnefningar
Verðlaun
Umfjöllun