512 4200 info@tst.is

Vogabyggð

Það er einstakt tækifæri til uppbyggingar borgarumhverfis í samspili við strandsvæðið hjá ósum Elliðaáa. Hverfið mun einkennast af markvissri landnotkun, þéttri byggð, góðri hönnun, meðvitaðari notkun byggingarefna út frá líftíma, vist- og sótspori og vandaðri útfærslu mannvirkja og umhverfis. Mörkuð verði samgöngustefna og gerðar kröfur um orku- og vatnsnotkun ásamt úrgangslosun á framkvæmdatíma og til framtíðar.

Grunnstefið í skipulagshugmynd Vogabyggðar er að hverfið sé heildstæð og sjálfbær eining sem einkennist af mikilli blöndu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis sem rammar inn fjölskrúðugt mannlíf, mismunandi aldurs- og þjóðfélagshópa. Skipulag Vogabyggðar myndar manneskjulega umgjörð og aðlaðandi staði og stuðlar að meiri notkun almenningsrýma og auknum samskiptum fólks. Fjölbreytt smávöruverslun og þjónusta eykur samfélagsleg gæði hverfisins. Kaupmaðurinn á horninu er einn af hornsteinum nærsamfélags. Mötuneyti í atvnnuhúsnæði er ávallt á götuhæð og opið almenningi. Grunnþjónusta í Vogahverfi þjónar íbúum Vogabyggðar, þar eru grunn- og framhaldsskóli auk leikskóla, heilsugæslu ofl. Göngubrú yfir Sæbraut við Tranavog og Snekkjuvog eflir vistvænar samgöngur milli hverfanna og eykur öryggi gangandi vegfarenda.

Skipulagstillagan gerir ráð fyrir fjölbreyttum húsakosti íbúðar- og atvinnuhúsnæðis í 3-5 hæða randbyggð, sem myndar heildstæðar götumyndir í borgarmiðuðu gatnakerfi. Núverandi gatnakerfi er lagt til grundvallar nýrri skipulagshugmynd fyrir svæðið. Dugguvogur er framlengdur í eðlilegu framhaldi af núverandi götu. Þvergötur eru lagðar þannig að allar betri byggingar við Súðavog geti staðið áfram, óbreyttar eða þær stækkaðar og endurbyggðar.

Á byggðasvæðinu að Sæbraut er atvinnuhúsnæði, sem myndar hljóðskjöld fyrir hverfið. Reitirnir milli Súðavogs og Dugguvogs einkennast af mjög blandaðri byggð atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. íbúðarbyggð er að strandsvæðinu.

Fjölbreytt íbúðarhúsnæði, stórar og smáar íbúðir:

sérbýli/raðhús, hæðir, efri hæðir atvinnuhúsnæðis, fjölbýli
félagslegt húsnæði, leiguhúsnæði, séreign
Fjölbreytt atvinnuhúsnæði, skrifstofustarfsemi, verslun, þjónusta og léttur iðnaður:

smáfyrirtæki, stórfyrirtæki
einkafyrirtæki, opinber fyrirtæki, stofnanir
verslanir, veitingastaðir, þjónusta, smáiðnaður, skrifstofur
Það bæri vitni um metnaðarfulla framtíðarsýn og trú á íslenskan byggingariðnað að stefna að því að Vogabyggð verði fyrirmyndarsvæði hvað varðar vistvænar byggingar og vönduð mannvirki og gera hverfið að alþjóðlegu sýningarsvæði. Þar yrðu sýnd dæmi um helstu framfarir í mannvirkjagerð á norðurslóðum í byrjun 21. aldarinnar.

Ár 2014
Staður
Stærð -m2
Verkkaupi
Verkform
Mannvirki
Myndir
Samstarfsaðilar Jvantspiijker og Felixx
Tilnefningar
Verðlaun 1. Verðlaun
Umfjöllun Sigríður Magnúsdóttir ræðir Vogabyggð við Lísu Pálsdóttur í Flakki