512 4200 info@tst.is

FÉLAGSHEIMILI BOLUNGARVÍKUR

Félagsheimili Bolungarvíkur var vígt 14. apríl 1952, en byggingin var fyrsta félagsheimilið sem hlaut styrk úr félagsheimilasjóði sem var stofnaður af Alþingi með lögum árið 1947.

Viðhaldi hafði lengi verið ábótavant og kröfur um aðbúnað breyst í tímans rás, var því nauðsynlegt að ráðast í umfangsmikla endurbyggingu. Tekin var ákvörðun um að endurbyggingu skyldi þannig háttað að viðhald til næstu 50 ára yrði í lágmarki og rekstur byggingarinnar einfaldur og skilvirkur. Markmið var að bæta aðgengi hreyfihamlaðra.

Allir innviðir hússins hafa verið endurnýjaðir, sem og ytra byrði. Gluggar og þak endurnýjað og útveggir einangraðir og múrhúðaðir. Vegna mikilla snjóþyngsla og fjarlægðar aðalinngangs frá götu var aðkoma félagsheimilisins oft þung og kallaði á mikinn snjómokstur. Það var því eindregin ósk að leita allra leiða að færa aðalinnganginn nær götu og jafnframt bæta úr aðstöðu snyrtinga og fatahengis. Þetta var gert með látlausri viðbyggingu. Aðalinngangur er yfirbyggður og í góðu skjóli fyrir öflugum norðanáttum. Við gamla aðalinnganginn er danspallur afmarkaður af upphækkaðri senu.

Innandyra var lögð áhersla á hlýleika og gleði. Eikarparket er á gólfum, eikarþiljur á veggjum samkomusalar og innréttingar og hurðir eru smíðaðar úr eik. Rauðgulur litur er notaður á sviðstjöld og gardínur og flestir stólar eru rauðir, en sumir gráir, borðplötur eru í grábrúnum lit. Veggir og loft eru hvítmáluð, sem og gluggar. Að utan er byggingin steinuð með djúpalónsperlu og glitsteini. Úthorn, þakkantar og umgjörð gamla inngangsins er dregið fram með hvítpússuðum flötum, þak félagsheimilisins er aluzinkbára, en þakflötur viðbyggingar er hellulagður.

Ár 2006-2011
Staður Aðalstræti 24-26, Bolungarvík, Ísland
Stærð -m2
Verkkaupi
Verkform
Mannvirki Félagsheimili
Myndir Hans-Olav Andersen
Samstarfsaðilar
Tilnefningar
Verðlaun
Umfjöllun