
Safnaðarheimili og tónlistarskóli við Hafnarfjarðarkirkju
Árið 1990 var efnt til samkeppni um skipulag og byggingar á reitnum sunnan við Hafnarfjarðarkirkju. Markmið samkeppnistillögunnar var að sýna fram á aðlögun nútíma bygginga að kirkjunni, styrkja staðsetningu hennar og auka gildi umhverfisins.
Steinsteyptir útveggir eru pússaðir og málaðir í sama lit og kirkjan, og myndar þannig gamalt og nýtt í eina heild. Aðalinngangar kirkju, safnaðarheimilis og tónlistarskóla eru frá hellulögðu hlaði, sem afmarkast í áttina að höfninni af grunnri tjörn.
Gólfflatarmál nýbyggingarinnar er 2467m2, það er um sex sinnum gólfflötur kirkjunnar. Byggingunni er skipt upp í minni húshluta sem falla að stærðum kirkjunnar og byggðinni í eldri bæjarhluta Hamarsins. Næst kirkjunni er safnaðarheimilið, sem hýsir kapellu, skrifstofur og kennslustofu. Þrír samkomusalir eru í hringlaga húshluta sem myndar miðju byggingarinnar og tónlistarskólinn er í syðsta hluta hennar.
Bygging safnaðarheimilis og tónlistarskóla var samstarfsverkefni kirkjunnar og bæjarfélagsins. Gerð var krafa um að innangengt væri milli kirkju og safnaðarheimilis. Vegna sameiginlegra afnota af safnaðarsalnum skyldi hann vera í góðum tengslum við tónlistarskólann.
Samspil birtu og rýmis ásamt einfaldleika í formum og efnisvali eru þættir sem var lögð áhersla á við útfærslu mannvirkisins. Stærðir og hlutföll eru sótt í kirkjuna og meginstefnan er samsíða henni.
Ár | 1990-1998 |
Staður | Hafnarfjarðarbær |
Stærð | Safnaðarheimili 1109 m2, Tónlistarskóli 1358 m2 |
Verkkaupi | Sóknarnefnd Hafnarfjarðarkirkju og Hafnarfjarðarbær |
Verkform | Samkeppni |
Mannvirki | Safnaðarheimili og tónlistarskóli |
Myndir | Teiknistofan Tröð |
Verðlaun | 1. Verðlaun |