512 4200 info@tst.is

Vogabyggð

Úr greinargerð:

Það er einstakt tækifæri til uppbyggingar borgarumhverfis í samspili við strandsvæðið hjá ósum Elliðaáa. Hverfið mun einkennast af markvissri landnotkun, þéttri byggð, góðri hönnun, meðvitaðari notkun byggingarefna út frá líftíma, vist- og sótspori og vandaðri útfærslu mannvirkja og umhverfis. Mörkuð verði samgöngustefna og gerðar kröfur um orku- og vatnsnotkun ásamt úrgangslosun á framkvæmdatíma og til framtíðar.

Grunnstefið í skipulagshugmynd Vogabyggðar er að hverfið sé heildstæð og sjálfbær eining sem einkennist af mikilli blöndu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis sem rammar inn fjölskrúðugt mannlíf, mismunandi aldurs- og þjóðfélagshópa. Skipulag Vogabyggðar myndar manneskjulega umgjörð og aðlaðandi staði og stuðlar að meiri notkun almenningsrýma og auknum samskiptum fólks. Fjölbreytt smávöruverslun og þjónusta eykur samfélagsleg gæði hverfisins. Kaupmaðurinn á horninu er einn af hornsteinum nærsamfélags. Mötuneyti í atvinnuhúsnæði er ávallt á götuhæð og opið almenningi. Grunnþjónusta í Vogahverfi þjónar íbúum Vogabyggðar, þar eru grunn- og framhaldsskóli auk leikskóla, heilsugæslu ofl. Göngubrú yfir Sæbraut við Tranavog og Snekkjuvog eflir vistvænar samgöngur milli hverfanna og eykur öryggi gangandi vegfarenda.

Skipulagstillagan gerir ráð fyrir fjölbreyttum húsakosti íbúðar- og atvinnuhúsnæðis í 3-5 hæða randbyggð, sem myndar heildstæðar götumyndir í borgarmiðuðu gatnakerfi. Núverandi gatnakerfi er lagt til grundvallar nýrri skipulagshugmynd fyrir svæðið. Dugguvogur er framlengdur í eðlilegu framhaldi af núverandi götu. Þvergötur eru lagðar þannig að allar betri byggingar við Súðavog geti staðið áfram, óbreyttar eða þær stækkaðar og endurbyggðar.

Á byggða svæðinu að Sæbraut er atvinnuhúsnæði, sem myndar hljóðskjöld fyrir hverfið. Reitirnir milli Súðavogs og Dugguvogs einkennast af mjög blandaðri byggð atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. íbúðarbyggð er að strandsvæðinu.

Ár 2014
Staður Reykjavík
Verkkaupi Reykjavíkurborg
Verkform Samkeppni
Mannvirki Skipulag
Samstarfsaðilar Jvantspiijker og Felixx
Verðlaun 1. Verðlaun, Skipulagsverðlaunin 2016
Umfjöllun Sigríður Magnúsdóttir ræðir Vogabyggð við Lísu Pálsdóttur í Flakki