512 4200 info@tst.is

Efstaleiti 5

Tvílyft skrifstofu- og fundarhús með kjallara undir hluta hússins. Í miðju er háreistur samkomusalur með þakgluggum. Skrifstofur, fundarherbergi og önnur þjónusturými raðast umhverfis salinn á báðum hæðum. Við hönnun hússins var leitast við að skapa gott vinnuumhverfi. Sérstaklega var hugað að hljóðvist, góðu andrúmslofti og þægilegri lýsingu með samspili rafmagns- og dagsbirtu. Efnisval utanhúss einkennist af láréttum zinkþiljum ásamt gegnheilli eik í gluggaflötum. Innanhúss er eik í hurðum, gólflistum og innréttingum.

Viðurkenning byggingarnefndar Reykjavíkur fyrir framúrskarandi hönnun og frágang uppdrátta árið 2000, fyrir húsið á lóðinni Efstaleiti 5.

Úr umsögn:
“Útlínur byggingarinnar mynda strangt kassalaga form, en yfirborðsfletir allra hliða eru rofnir á frjálslegan en um leið mjög agaðan hátt. Hönnuðir nota aldagamlar aðferðir sem byggja á rými, ljósi, lit og áferð við að forma bygginguna, bæði að utan og innan. Útlit byggingarinnar hefur sumpart klassíska eiginleika hvað varðar hlutföll og form. Má þar nefna samspil sívalninga, kassa og holrýmis og samspili ferninga og rétthyrninga. Heildarskipulag og nánari útfærsla á grunnmyndum, útliti og efnisvali, virkar einföld og nánast sjálfgefin en er í raun árangur hönnunar, sem aðeins næst með miklu innsæi og þroska viðkomandi höfunda.”

“Teiknistofan Tröð er meðal þeirra sem ávallt skila mjög vönduðum og vel útfærðum uppdráttum með byggingarleyfisumsóknum. Uppdrættir frá þeim og önnur gögn eftir því sem við getur átt, eru langt umfram meðallag og bera vott um faglegan metnað og kunnáttu, ekki síður en afburða hönnun. Þetta á m.a. við um uppdrætti sem fylgja þessu verkefni og eru meðal þess besta sem lagt hefur verið fyrir núverandi bygginganefnd.”

Ár 1999 – 2001
Staðsetning Efstaleiti 5, Reykjavík, Ísland
Heildarstærð 1760 m2
Verkkaupi Trésmíðafélag Reykjavíkur
Útgáfa
  • Byggekunst, Oslo, Norway, 02-03, bls. 40-45, Efstaleiti 5, skrifstofuhús.
  • Rheinzink Calendar. January 2003, Efstaleiti 5, skrifstofuhús.
Ljósmynd Bragi Thor Josefsson, Hans-Olav Andersen, Reinzink