Ingólfstorg

Ingólfstorg
Skýringarmyndir
Afstöðumynd
Útlit
Útlit
Austurvöllur
Víkurgarður

Ingólfstorg - Kvosin, samkeppnistillaga
Hönnun og skipulag almenningsrýma og frumhönnun hótels.
2012

Tillagan fólst í því að styrkja umgjörð og draga fram sérstöðu Austurvallar, Víkurgarðs og Ingólfstorgs og tryggja öruggt og gott flæði um stræti og sund.

Lagt er til að við Ingólfstorg rísi bókmenntahús, sem hefur að markmiði að efla áhuga á bókmenntum og stuðla að lestri. Bókabúð og kaffihús eru á götuhæð, aðstaða fyrir umræður og miðlun á efri hæðum ásamt vinnuaðstöðu og smáíbúðum fyrir rithöfunda og fræðimenn. Stærri viðburðir bókmenntahússins færu fram í samkomusalnum sem kenndur er við NASA. Salurinn hefur fjölbreytt notagildi og nýtist í tengslum við hótel og starfsemi bókmenntahúss. 

Núverandi hönnun og útfærsla Ingólfstorgsins skapar umgjörð um ríkt mannlíf og myndar nauðsynlegt svigrúm fyrir dýnamíska og fjölbreytta starfsemi borgarinnar. Lagt er til að varðveita torgið og styrkja umgjörð þess.

Hótel- og veitingarekstur ásamt skrifstofu- og íbúðarhúsnæði á efri hæðum er áberandi á svæðinu. Ferðaþjónusta er mikilvæg atvinnugrein en framtíð hennar verður að byggja á menningu samfélagsins og fjölbreyttu mannlífi. Verslunarrekstur á skipulagssvæðinu er þar mikilvægt innlegg sem og aðsetur menningarstofnunar, þar sem samræðugrundvöllur milli heimamanna og gesta myndast.

Eitt af markmiðum samkeppninnar er að fá fram góða lausn að hóteli. Lagt er til að hótelinu verði komið fyrir í Landssímahúsinu. Byggingunni er umbreytt og hún stækkuð þannig að koma megi fyrir um 130 herbergja, fjögurra stjörnu hóteli, með veitingastöðum og verslunum á jarðhæð og baðaðstöðu á þakhæð. Viðbygging að Austurvelli og Kirkjustræti stuðlar að skýrri afmörkun Austurvallar til vesturs og myndun göturýmis í Kirkjustræti.  Aðalinngangur hótelsins snýr að Víkurgarði, sem gefur hótelinu aðlaðandi og rólega umgjörð.Víkurgarður býr yfir möguleikum að þróast sem skjólsæll, sólríkur skrúðgarður. Skapandi hugsun við rekstur jarðhæðar umhverfis torgið gæti virkjað þá möguleika sem garðurinn býður uppá.

Megintilgangur samkeppninnar er að laða fram lausnir á framtíð húsanna Vallarstræti 4 og Aðalstræti 7. Síðan húsin risu, hafa aðstæður og umhverfi gjörbreyst. Í dag standa húsin viðskila við fortíðina og skortir framtíð. Húsunum er sýndur mestur sómi til framtíðar með því að nýta þau í samræmi við eðli þeirra og stærð og flytja á hentugan stað. Húsin henta vel fyrir íbúðir. Ekki er mælt með því að húsin verði á Ingólfstorgi, það rýrir stærð og notagildi torgsins. Horft er til þess að í framtíðinni gætu húsin staðið við Suðurgötu.

Samstarfsaðilar:

Magnús Andersen, myndvinnsla

Merkt sem:
2010-2014